Gjaldeyristekjur Íslendinga af fjárfestingum erlendis sem og lánveitingum til erlendra aðila hafa færst verulega í aukana á undanförnum árum samhliða útrás innlendra fjárfesta og fjármálafyrirtækja, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Í upphafi þessa áratugar vigtuðu vaxtatekjur erlendis frá sem og ávöxtun hlutafjár samanlagt um 5% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Nú er vægi þessara tekna hins vegar komið upp í 25%. Starfsemi þessi skapar því um fjórðung gjaldeyristekna þjóðarinnar eða fimm sinnum stærra hlutfall en fyrir fimm árum," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin segir að þjónustutekjur erlendis frá hafa allan áratuginn verið um eða rétt yfir 30% gjaldeyristekna, þar muni mestu um tekjur vegna erlendra ferðamanna sem hafa vaxið undanfarin ár.

?Vægi tekna af vöruútflutningi í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins hefur snarminnkað á undanförnum árum. Vægið var hátt nær 70% við upphaf áratugarins en er nú komið í 46%. Vægi sjávarútvegs í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar er komin niður í um 27% og eru iðnaðarvörur í 16%. Líkur eru á því að vægi vöruútflutnings aukist á næsta ári þegar álútflutningur hefst frá grundvelli þeirra álversframkvæmda sem staðið hafa yfir hér á landi á undanförnum árum," segir greiningardeildin.

Fjölbreyttari gjaldeyrisöflun er til merkis um að hagkerfið er ekki eins einsleitt og áður var. ?Skilar það að líkindum auknum stöðugleika en einhæfni íslensks efnahagslífs hefur um langt skeið verið rót efnahagssveiflna. Fjölgun í stoðum hagkerfisins verður því að teljast fagnaðarefni," segir greiningardeildin.