Aníta Rut Hilmarsdóttir hefur verið ráðin til eignastýringar Fossa markaða, sem sett var á laggirnar síðasta vor. Hún hefur nokkra reynslu af fjármálamarkaði, þar á meðal eignastýringu, og hefur auk þess lokið gráðu í viðskiptafræði frá HR og prófi í verðbréfaviðskiptum.

Aníta vann hjá Arion banka í alls 7 ár í ólíkum hlutverkum. Hún hóf störf hjá viðskiptabankasviði samhliða námi, en fór að beina sjónum sínum að eignastýringu á lokaári námsins, sem hún fékk svo að spreyta sig á innan bankans að námi loknu þegar hún fór yfir í eignastýringu fagfjárfesta.

Segja má að fjármálaheimurinn eigi hug Anítu allan, því auk menntunar og starfa þar hefur hún lagt talsverða vinnu í samstarfsverkefnið Fortuna Invest, sem er fræðsluvettvangur á Instagram stofnaður af þremur konum úr fjármálaheiminum með það að markmiði að auka fræðslu og fjölbreytni á því sviði.

„Þetta hefur verið helsta áhugamálið mitt eftir vinnu upp á síðkastið. Við erum með fjölbreyttan fróðleik, sem hefur vantað töluvert upp á fannst okkur. Þú getur ekki einu sinni gúglað hvenær markaðir eru opnir á Íslandi. Við vildum því gera þennan lokaða heim opnari. Þar fyrir utan vildum við auka fjölbreytni og hvetja konur sérstaklega til að taka þátt á fjármálamarkaði. Hugsunin er að hafa þetta stutt og einfalt og á mannamáli,“ segir hún, en markhópurinn er ungt en fullorðið fólk.

Þá sjaldan að Aníta er ekki að fræða fólk um eða taka þátt á fjármálamarkaði hefur hún meðal annars gaman af útiveru. Hún hefur einnig sett sér það markmið að lesa eina bók á mánuði, sem hefur að sögn gengið ágætlega þökk sé heimsfaraldrinum. Ekki fylgir hins vegar sögunni hvort umræður vinkvennanna í fjallgöngunum og umfjöllunarefni bókanna tengjast einnig fjármálum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .