Árný J. Guðmundsdóttir, lögfræðingur hjá Rökstólum lögmannsstofu, segir að í yfirlýsingu fjármálaráðuneytisins, sem birt var á heimasíðu ráðuneytisins í dag, hafi ekki verið svarað efnislega athugasemdum hennar varðandi skort á heimildum við stofnun og eftirfarandi starfsemi Spkef sparisjóðs.

Fjármálaeftirlitið
Fjármálaeftirlitið
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
„Ég fjallaði um skort á lagaheimild í tengslum við stofnun og starfsemi Spkef sparisjóðs og mögulegar afleiðingar þess, í Viðskiptablaðinu þann. 4. ágúst sl.," segir Árný í skriflegu svari til Viðskiptablaðsins. „Í Morgunblaðinu þann 5. ágúst sl. staðfesti Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME), að lagaheimild hefði ekki verið til staðar en sagði jafnframt að sparisjóðurinn hefði verið stofnaður með lögjöfnun frá 1. gr. „neyðarlaganna“ svo kölluðu. Í grein minni í Morgunblaðinu þann 6. ágúst sl. var bent á að lögjöfnun hefði ekki verið tæk.“

Fjármálaráðuneytið sendir frá sér yfirlýsingu

Árný J. Guðmundsdóttir
Árný J. Guðmundsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Árný vísar svo í yfirlýsinguna frá fjármálaráðuneytinu, þar sem fullyrt er að lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.e. að samkvæmt „neyðarlögunum“ hafi fjármálaráðuneytinu verið heimilt að stofna fjármálafyrirtæki. Jafnframt segir í yfirlýsingunni að hugtakið fjármálafyrirtæki sé ekki bundið við tiltekið félagaform, en samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki geta fjármálafyrirtæki verið annað hvort hlutafélög eða sparisjóðir.

Hálf sagan sögð

Í framhaldi af því segir Árný:

Fjármálaráðuneytið fellur í þá gryfju að segja hálfa söguna og vísa aðeins í hluta lagaákvæðis. Þegar lagaákvæði eru túlkuð verður að líta til þeirra í heild. Þannig segir í lok ákvæðisins: „Fyrirtæki sem stofnað er samkvæmt þessari grein hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki.“ Viðskiptabankar verða einungis reknir sem hlutafélög.

Þannig er ljóst þegar 1. gr. „neyðarlaganna“ er lesin í heild, að fjármálaráðuneytið gat aðeins stofnað fjármálafyrirtæki með starfsleyfi frá upphafi með því að stofna viðskiptabanka og þar með hlutafélag. Hefði fjármálaráðuneytið viljað stofna sparisjóð hefði ráðuneytið hins vegar þurft að stofna félag sem hefði orðið að sækja um starfsleyfi sem sparisjóður til FME á hefðbundinn hátt. Það var ekki gert.

Það er einnig ljóst að fjármálaráðuneytið og FME eru tvísaga um lagagrunn fyrir stofnun og starfsleyfisskyldum rekstri SpKef sparisjóðs. Þannig staðfesti Gunnar Andesen í samtali við Morgunblaðið þann 5. ágúst sl. að lagaheimild hefði ekki verið til staðar en FME hefði beitt lögjöfnun frá neyðarlögunum. Engin þörf var að beita lögjöfnun ef fjármálaráðuneytið hefði haft heimild í settum lögum. Þannig er ljóst að fjármálaráðuneytið hefur ekki svarað efnislega athugasemdum mínum varðandi skort á heimildum við stofnun og eftirfarandi starfsemi Spkef sparisjóðs.

-------------------------------------------

Lesendum til glöggvunar er ákvæði 1. gr. „neyðarlaganna“ birt hér í heild:

1. gr. Við sérstakar og mjög óvenjulegar aðstæður á fjármálamarkaði er fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að reiða fram fjármagn til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka fjármálafyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta.

Með sérstökum og mjög óvenjulegum aðstæðum á fjármálamarkaði, sbr. 1. mgr., er átt við sérstaka fjárhags- og/eða rekstrarerfiðleika hjá fjármálafyrirtæki, m.a. líkur á að það geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum, forsendur afturköllunar starfsleyfis séu líklega fyrir hendi eða líkur standi til að það geti ekki uppfyllt kröfur um lágmarks eigið fé og að úrræði Fjármálaeftirlitsins séu ekki líkleg til þess að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Þá er með sérstökum aðstæðum m.a. átt við ef fjármálafyrirtæki hefur óskað eftir eða fengið heimild til greiðslustöðvunar eða nauðasamninga eða óskað eftir gjaldþrotaskiptum eða verið úrskurðað gjaldþrota.

Ákvæði laga um fjármálafyrirtæki gilda ekki hvað varðar heimild ríkisins til að eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki samkvæmt þessum lögum. Ákvæði laga um verðbréfaviðskipti um yfirtökuskyldu og lýsingar gilda ekki um öflun og meðferð eignarhlutar ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum samkvæmt þessum lögum. Ákvæði laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum gilda ekki um yfirtöku fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta samkvæmt lögum þessum. Við stofnun hlutafélags í því skyni að taka við rekstri fjármálafyrirtækis að hluta til eða í heild sinni skal það félag undanþegið ákvæðum hlutafélagalaga um lágmarksfjölda hluthafa skv. 2. mgr. 3. gr. svo og ákvæðum 6.–8. gr. laganna um sérfræðiskýrslu. Fyrirtæki sem stofnað er samkvæmt þessari grein hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt ákvæðum 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki.