Fjármálaráherrar G-8 ríkjanna svokölluðu, helstu iðnríkja heims, telja útlitið í efnahagsmálum heimsins bjartara en það hefur verið frá falli Lehman Brothers sl. haust. Eftir tveggja daga fund þeirra sem var að ljúka á Ítalíu sögðust þeir vera að undirbúa áætlanir um hvernig þeir muni snúa af braut neyðaraðgerðanna sem farið var út í til að bjarga efnahag heimsins. Þetta kemur fram i frétt Bloomberg.

Enn er óvissa

Fjármálaráðherrarnir segja þó að enn sé of snemmt að hætta hallarekstri ríkisins og björgunaraðgerðum fyrir banka. Staðan sé óviss en merki séu um að stöðugleiki sé að nást.

Batamerki á hlutabréfamarkaði

Fjárfestar hafa áhyggjur af því að 2000 milljarða dala neyðaraðstoð sem farið hefur verið út í geti orðið til þess að ýta undir verðbólgu ef ekki verði snúið tímanlega af braut neyðaraðstoðar og til þess að styðja við hagkerfi á batavegi.

Til marks um batann sem fjárfestar telja sig sjá má m.a. hafa að allar helstu hlutabréfavísitölur Bandaríkjanna eru nú í þeirri stöðu að hafa hækkað frá áramótum. Dow Jones Industrial Average var síðust þeirra til að ná þessu marki nú fyrir helgi, en í mars hafði hún lækkað um 25% frá áramótum, sem var versta byrjun árs frá upphafi.