*

sunnudagur, 16. júní 2019
Innlent 16. apríl 2019 07:25

Fjármálastjóri fékk níu milljónir

Fyrrverandi fjármálastjóri Keims ehf. lagði fyrirtækið fyrir dómi vegna ógreiddra launa fyrir tveggja ára vinnu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Heildverslunin Keimur var í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir helgi dæmt til að greiða fyrrverandi fjármálastjóra fyrirtækisins rúmlega níu milljónir króna vegna ógreiddra launa. Starfsmaðurinn fyrrverandi hafði krafist rúmlega 28 milljóna.

Tímabilið sem krafan náði til spannaði frá september 2014 til febrúar 2017. Óumdeilt var að fjármálastjórinn, sem í upphafi var ráðinn sem sölu- og markaðsstjóri, sinnti vinnuskyldu sinni á tímanum en deilt var um launakjör hans. Bar hann því við að í gildi hefði verið munnlegt samkomulag um 850 þúsund króna mánaðarlaun. Fyrirtækið byggði á móti á því að um það hefði verið samið að launagreiðslum yrði frestað þar til hagur fyrirtækisins vænkaðist og að endurgjald fyrir starf mannsins ætti að felast í því að síðar myndi hann eignast hlut í því.

Í málinu lágu fyrir þrír launaseðlar frá 2016 en samkvæmt þeim voru laun mannsins 356 þúsund krónur auk ökutækjastyrks. Dómari málsins taldi ósannað að í gildi hefði verið munnlegt samkomulag um önnur kjör. Að mati dómsins námu eftirstandandi laun vegna tímabilsins því tæpum 8,9 milljónum. Krafan þótti ekki fallin niður sökum tómlætis.

Krafa um greiðslu launa í uppsagnarfresti auk ógreidds orlofs var ekki gerð af hálfu starfsmannsins þegar hann hóf að sækja laun sín. Var það fyrst gert við höfðun málsins. Þóttu þær greiðslur því niður fallnar vegna tómlætis. Hins vegar átti hann rétt á greiðslu orlofs við starfslok sín og þeirri upphæð, rúmum 300 þúsund krónum, því bætt við.

Alls var fyrirtækið því dæmt til að greiða 9,2 milljónir króna auk 620 þúsund krónur í málskostnað.

 

Stikkorð: Dómsmál
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is