Skömmu áður en COVID-19 faraldurinn tók sér bólfestu hér á landi stofnuðu félagarnir Axel Paul Gunnarsson og Hlynur Árnason brugghúsið Böl Brewing, en félagið utan um reksturinn ber hið skemmtilega nafn Bölgerðin. Axel segir að sameiginlegur áhugi hans og Hlyns á bjórbruggun hafi orðið kveikjan að stofnun brugghússins.

„Hlynur vann áður sem bruggmeistari úti í Hollandi sem og hjá Borg Brugghúsi. Ég bjó í nokkur ár í Englandi og þar byrjaði ég að prófa mig áfram við að brugga minn eigin bjór. Við höfum þekkst í þó nokkurn tíma og yfirleitt þegar við hittumst eyddum við mörgum klukkutímum í að spjalla um bjórbruggun," segir Axel.

„Þarna áttuðum við okkur á því að viðhorf okkar til bjórbruggunar eiga vel saman. Ég flutti svo til Íslands frá Englandi fyrir tveimur árum og þá fórum við að ræða um að byrja að brugga bjór í sameiningu. Um síðustu áramót tókum við svo endanlega ákvörðun um að kýla á þetta. Í byrjun árs stofnuðum við félag utan um starfsemina en um það bil viku síðar setti COVID-19 faraldurinn allt úr skorðum hér á landi," bætir hann við.

Að sögn Hlyns ákváðu þeir félagar því að breyta áætlunum sínum til að bregðast við COVID-19. „Upphaflega ætluðum við að einblína á kútasölu til bara og veitingastaða en vegna faraldursins ákváðum þess í stað að tappa bjórnum á dósir og koma þeim í hillur Vínbúðanna."

Viðtökur vonum framar

Nú á dögunum hóf Vínbúðin einmitt að bjóða bjóra frá Böl Brewing til sölu, en um er að ræða tvær mismunandi gerðir. Annars vegar súrbjórinn Bombogenesis imperial berry bomb gose og hins vegar bjór af gerðinni pale ale sem ber heitið Killer Queen earl grey pale ale.

„Bombogenesis súrbjórinn okkar er nokkuð óhefðbundinn að mörgu leyti. Bjórinn er hvorki of súr né of sætur og inniheldur ríflegt magn af hindberjum, brómberjum, bláberjum og fjólum. Það má orða það þannig að ef við værum með fjármálastjóra þá myndi hann aldrei leyfa okkur að setja þennan bjór í framleiðslu," segir Axel kíminn.

„Það er frekar algengt að brugghús setji pale ale á markað en við ákváðum að prófa að bæta earl grey telaufum við hefðbundna uppskrift af slíkum bjór. Það má segja að þessi tilraun hafi svínvirkað og teið gefur bjórnum mjög skemmtilegan karakter," bætir Hlynur við.

Axel og Hlynur segja viðtökurnar við bjórum Böl Brewing hafa verið vonum framar. „Við vorum að selja kúta í sumar til bara og veitingastaða í öllum fjórðungum landsins. Fyrsti söludagur bjóranna í Vínbúðinni var svo á föstudaginn í síðustu viku og rúmlega helmingur af upplaginu sem Vínbúðin tók inn frá okkur seldist upp strax á fyrsta degi," segir Hlynur, en að hans sögn má reikna með áframhaldandi straumi af nýjum bjórum frá Böl Brewing í verslanir Vínbúðanna.

„Það eru tveir nýir bjórar frá okkur væntanlegir í Vínbúðir fljótlega. Annar er hafra stout með kólumbísku kaffi og hlynsírópi. Hinn bjórinn súr IPA með kirsuberjum, apríkósum og appelsínuberki. Við erum duglegir að prófa okkur áfram og það má fastlega gera ráð fyrir áframhaldandi streymi af nýjum bjórum frá okkur með reglulegu millibili."

Byggir á heimsendahúmor

„Hugmyndafræðin í kringum Böl Brewing er byggð á húmor okkar á milli um að heimurinn sé að farast og á rót sína að rekja til nokkuð svartsýnnar umræðu sem átti sér stað um loftslagsmál. Við hugsuðum hlutina því á þann veg að fyrst að heimurinn væri að farast, þá þyrftum við a.m.k. að tryggja að fólk hefði aðgang að góðum bjór til að drekka yfir endalokunum," segir Axel.