Besti árangurinn sem fæst í fjármálafræðslu barna er að tvinna saman leik og fræðslu. Þetta sýna niðurstöður kannana sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum, að sögn Arthurs Reitsma, sérfræðings hjá hollensku bankasamtökunum. Hann var aðalræðumaður á SFF-degi Samtaka fjármálafyrirtækja fyrir skömmu. Reitsma lagði fyrir nokkrum árum grunn að fjármálafræðslu fyrir grunnskólabörn í Hollandi og leitaði víða fyrirmynda.

„Börnum finnst gaman að leika sér. Fjármálaleikur hjálpar því börnum, þeim finnst hann skemmtilegur og fróðleikurinn festist betur í hugum þeirra,“ segir Reitsma og vonar að þessi aðferð muni leiða börnin út í lífið.

Fjármálaleikur hollensku bankasamtakanna er búinn til fyrir þrjá aldurshópa á seinni stigum barnaskóla, þ.e. börn á aldrinum 10-12 ára og heitir leikurinn Cash-quiz. Leikirnir eru mismunandi, einn fyrir hvern aldurshóp. Leikurinn er ekki aðeins spilaður í kennslustofunni. Hann er jafnframt hægt að spila af skjá í kennslustofu og á netinu. Sömuleiðis er til smáforrit (app) fyrir spjaldtölvur og snjallsíma. Leikurinn samanstendur af spurningum þar sem reynir á þekkingu nemenda, hegðun þeirra og spurningarnar eru samdar í samvinnu við nokkur teymi, svo sem hollenska fjármálaráðuneytið, og gengur hann út á að þátttakendur afli sér tekna, safni peningum, skilji auglýsingar og fleira sem tengist daglegu lífi hinna fullorðnu. Vinningarnir eru af ýmsum toga, allt frá miðum á söfn og upp í spjaldtölvur.

Reitsma segir leikinn ganga vel í Hollandi. Mörg verkefni eru í gangi tengd fjármálafræðslu í samstarfi við evrópsku bankasamtökin. Nú er unnið að því að safna þeim saman en stefnt er að því að velja nokkur bestu verkefnin og nota þau í öðrum löndum þar sem vonast er til að þau verði þróuð frekar. „Það er nefnilega ekki hægt að þýða leikinn sem ég þróaði. Það er hægt að nota suma hluti leiksins en hann er ekki snið, það þarf að semja hann upp á nýtt fyrir hvert land fyrir sig því hann beinir sjónum að einstökum þáttum menningar og sögu hvers lands fyrir sig,“ segir Arthur Reitsma.

Ítarlega er rætt við Arthus Reitsma í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .