Skuldatryggingaálag Kaupþings var á bilinu 650 til 700 punktar seinni partinn og hafði lækkað úr 720 punktum frá því á mánudag að sögn Dow Jones-fréttaveitunnar.

Lækkunin er rakin til tilkynningar um að bankinn hafi tryggt sér fjármagn að andvirði 1,1 milljarð evra á kjörum sem eru „umtalsvert lægri” en það skuldatryggingaálag sem hvílt hefur á bankanum síðustu daga gefur til kynna, eins og það er orðað í fréttatilkynningu frá bankanum. Auk þessa fékk bankinn 195 milljónir evra að láni frá öðrum evrópskum banka.

Dow Jones hefur eftir Oliviu Frieser, sérfræðingi í greiningum á fjármálafyrirtækjum hjá BNP Parisbas, að fréttir af því að bankinn hafi lokið fjármögnun séu jákvæðar, ekki síst þar sem um langtímafjármögnun í erfiðu árferði sé að ræða og það verulega undir þeim kjörum sem skuldatryggingaálag hans bendi til.

Fjármögnunin fór fram með lokuðum skuldabréfasölum (e. private placement) og haft er eftir Frieser í fregn Dow Jones að orðrómur sé um að evrópskir bankar sýni því áhuga á að bjóða upp á slíka fjármögnun. Hún gerir að því skóna að hugsanlega verði bæði Landsbankanum og Glitni boðin slík skuldabréfasala og að hún vænti þess að þeir taka þannig tilboðum.

Þrátt fyrir að fréttir af fjármögnun Kaupþings kunni að létta á skuldatryggingaálaginu að mati Frieser bendir hún á að álagið sé enn mjög hátt og það veki upp áhyggjur þar sem að slíkt leiðir til dýrrar fjármögnunar – þótt að hún sé lægri en sjálft álagið gefi tilefni til.

Dow Jones-fréttaveitan hefur einnig eftir ónafngreindum sérfræðingi á fjármálamarkaði að þrátt fyrir að fréttirnar af fjármögnun Kaupþings séu jákvæðar og sé enn vandi á herðum íslensku bankanna og búast megi við flökti á álagi Kaupþings frá á næsta ár.