Útlit er fyrir að þeir fjármunir sem eru í Atvinnuleysistryggingasjóði dugi ekki út árið. Sjóðurinn hafði um áramótin um það bil fimmtán milljarða til ráðstöfunar.

Miðað við 5,7% meðal atvinnuleysi á árinu þarf sjóðurinn að eiga um 17,5 milljarða fyrir atvinnuleysisbótum. Líkur eru á því að atvinnuleysi verði meira en það á árinu.

„Þetta er í járnum," segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, í samtali við Viðskiptablaðið. Sjóðurinn er fjármagnaður með tryggingargjaldi, þ.e.a.s. hlutfalli af launum.

Gissur segir að dugi tekjur sjóðsins ekki fyrir útgjöldum þurfi að leita á náðir ríkissjóðs. Það yrði væntanlega gert með framlagi á fjáraukalögum.

Atvinnuleysistryggingasjóður var stofnaður árið 1956. Hann var upphaflega fjármagnaður með opinberum fjárframlögum en frá árinu 1993 hefur hann verið fjármagnaður með tryggingargjaldi. Síðan þá hefur ekki þurft að leita til ríkissjóðs.