Fjarskipti hf., móðurfélag Vodafone, skilaði 440 milljóna króna hagnaði í fyrra, en árið 2011 var 248 milljóna króna hagnaður á rekstri fyrirtækisins. Tekjur samstæðunnar hækkuðu um 3,0% milli ára og námu 13.345 milljónum króna í fyrra. EBITDA hagnaður hækkaði um 14,6% milli ára og nam 2.768 milljónum. Í tilkynningu til Kauphallarinnar er tekið fram að skráning hlutabréfa félagsins á markað kostaði 114 milljónir og er sá kostnaður færður meðal rekstrarkostnaðar í uppgjöri ársins. Sé EBITDA hagnaður ársins leiðréttur fyrir þeim einskiptiskostnaði þá nam hann 2.882 milljónum og hækkar um 19% frá árinu 2011.

Skuldir félagsins lækkuðu töluvert milli ára, eða úr 11.789 milljónum króna í árslok 2011 í 9.496 milljónir um síðustu áramót. Eignir lækkuðu einnig um tæpar 500 milljónir og hækkaði eigið fé því úr 3.975 milljónum króna í 6.782 milljónir. Hækkunin birtist annars vegar í því að hlutafé hækkaði um 850 milljónir og þá hækkaði yfirverðsreikningur hlutafjár um rúmar 2.400 milljónir króna.

Handbært fé frá rekstri Fjarskipta var í fyrra 2.295 milljónir króna en var 1.716 milljónir árið 2011.