Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra gerir ráð fyrir að nýtt frumvarp um stjórn fiskveiða verði tilbúið innan tveggja vikna. Hann kynnti málið á ríkisstjórnarfundi í morgun. Sagt var frá þessu í fréttum Ríkisútvarpsins .

Steingrímur segir að unnið sé að fjórum frumvörpum um fiskveiðar og sjávarútvegsmál. Tvö séu komin til þingflokka, það þriðja sé í umsagnarferli og heildarfrumvarpið um stjórn fiskveiða sé um það bil að verða tilbúið.

Atvinnuvegaráðherra hefur sagt að ákvæði um tengsl sjávarútvegsfyrirtækja þurfi að skerpa til þess að hindra að kvótinn safnist á fárra hendur. Samkvæmt heimildum fréttastofu Ríkisútvarpsins verður þetta ákvæði hert í hinu nýja frumvarpi.