Nú eru alls 10.334 einstaklingar skráðir atvinnulausir á Íslandi, flestir á höfuðborgarsvæðinu eða tæplega 6.400 manns.

Þetta kemur fram á vef Vinnumálastofnunar.

Fyrir utan höfuðborgarsvæðið mælist mest atvinnuleysi á Suðurnesjum þar sem tæplega 1.400 manns eru skráðir atvinnulausir.

Sé miðað við tölur um vinnuafl á þriðja ársfjórðungi 2008 samsvarar þetta um 5,5% atvinnuleysi samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins.

Í skýrslu Vinnumálastofnunar um horfur í atvinnumálum sem gefin var út um áramót kom fram að gert er ráð fyrir að atvinnuleysi muni hækka nokkuð hratt næstu 2-3 mánuði og fara í ríflega 7% í janúar og yfir 8% í febrúar.

Eftir það mun atvinnuleysi aukast hægar og fara í 9-10% á vormánuðum.