*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 31. maí 2013 16:16

Fjöldi hluthafa Vodafone kominn undir kauphallarviðmið

Hluthafar í skráðum félögum eiga undir eðlilegum kringumstæðum að vera 500 talsins við skráningu en eru í dag 442 hjá Vodafone.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hluthafar í Vodafone eru orðnir færri en viðmið Kauphallarinnar kveða á um. Hluthafarnir eru í dag 442 talsins, samkvæmt svari félagsins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins. Þeim hefur fækkað um 106 frá áramótum, en þá voru þeir 548 talsins. Viðmiðunarkrafa Kauphallarinnar fyrir skráningu félags á markað er að hluthafar séu að lágmarki 500 talsins. 

Í svari frá Kauphöllinni um hvort og þá hvernig litið er til félaga ef fjöldi hluthafa er undir 500, er bent á að reglurnar kveði ekki á um fasta tölu hluthafa, þó svo að í skýringargrein í reglunum sé miðað við að undir eðlilegum kringumstæðum séu félög með að minnsta kosti 500 hluthafa, sem eigi hlutabréf að verðmæti um 100.000 krónum. „Þó svo að fjöldi hluthafa fari niður fyrir 500 er þó ekki þar með sagt að félagið uppfylli ekki skráningarskilyrðin heldur er í slíkum tilfellum horft til annarra þátta sem geta stuðlað að auknum seljanleika, s.s. hvort viðskiptavakt sé með hlutabréfin,“ segir í svari frá Kauphöllinni.

Grétar Már Axelsson, fjárfestatengill Vodafone, segir að fjöldi hluthafa í félaginu hafi ekki verið tekinn sérstaklega til skoðunar. Hann segir að reglurnar um lágmarksfjölda séu settar fyrir nýskráningar. Litið sé til fleiri þátta eftir skráningu, eins og verðmyndun, hvort viðskiptavakt sé á bréfunum og hvort upplýsingaskyldu sé fullnægt. Landsbankinn og Íslandsbanki eru viðskiptavakar Vodafone.

Að minnsta kosti 500 hluthafar undir eðlilegum kringumstæðum

„Nægilegur fjöldi hlutabréfa skal vera í eigu almennra fjárfesta og fjöldi hluthafa skal vera nægur. Til að leggja mat á hvort framboð og eftirspurn sé nægjanlegt má líta til fjölda hluthafa. Fá hlutabréf í eigu almennra fjárfesta eða fáir hluthafar geta leitt til ótraustari verðmyndunar. Undir eðlilegum kringumstæðum eru félög með a.m.k. 500 hluthafa, sem eiga hlutabréf að verðmæti u.þ.b. 100.000 krónur, talin fullnægja skilyrðum um hluthafa," segir meðal annars í reglum kauphallarinnar fyrir útgefendur fjármálagerningar.

Eins og segir í reglunum þá er forsenda viðskipta í kauphöll nægilegt framboð á verðbréfum og eftirspurn eftir þeim en það styður við áreiðanlega verðmyndun. „Eins og skilyrðin um seljanleika eru sett fram í reglunum þá bjóða þau upp á sveigjanleika við mat á því hvort nægjanlegt framboð eða eftirspurn sé fyrir hendi til að stuðla að áreiðanlegri verðmyndun. Mat á því hvort skilyrðið teljist uppfyllt tekur yfirleitt mið af fleiri þáttum, s.s. hvort viðskiptavakt sé með bréfin,“ segir í svari frá Kauphöllinni við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um reglur og fjölda hluthafa.

20 stærstu eiga 80% hlutafjár

Samkvæmt síðastu birtu hluthafaskrá Vodafone frá 11. apríl þá eiga 20 stærstu hluthafar félagsins 77,6% hlutafjár félagsins. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er þetta hlutfall um 80% í dag.

Hér má sjá 20 stærstu hluthafa félagsins miðað við stöðuna 11. apríl:

Stikkorð: Vodafone