Fjárfestar í námuiðnaði eru farnir að sjá mikla möguleika í hraðri bráðnun íshellunnar á Grænlandi. Mikil verðmæti eru talin vera falin í margvíslegum málmum og gulli undir Grænlandsísnum sem þekur um 80% landsins. Þá hefur aukið sjálfstæði Grænlendingar frá Dönum hleypt af stað einskonar æði varaðandi leit að gulli, zinki, blýi og olíu á Grænlandi.

Greint er frá því á vefsíðu Times on line að grænlensk yfirvöld hafi í þessum mánuði samþykkt að opnaðar verði gull og silfurnámur í Nalunaq héraði. Námufyrirtækið Black Angel hefur tryggt sér rétt á svæðinu og segir Niock Hall forstjóri fyrirtækisisn að það sé nú í fararbroddi vaxandi námuvinnslu á Grænlandi. Það muni þó örugglega ekki gleðja umhverfisverndarsinna sem hafi áhyggjur af viðkvæmu lífríki Norðurheimskautssvæðisins. Hann segir að fyrirtækið hyggist einnig opna að nýju námur 400 kílómetrum norðar á næsta ári sem lokað var 1990.

Hann segir að námuiðnaðurinn hafi öðlast mikinn drifkraft við þá staðreynd að málmverð hafi hækkað að meðaltali um 73% á heimsvísu það sem af er þessu ári samkvæmt tölum hrávörumarkaðar LME í London. Þar hefur verð á zinki og blýi sem finnst í miklu magni á Grænlandi hækkað um 124% og 69%.

Ástralska námufyrirtækið Ironbark ráðgerir að opna zink og blýnámur á norðausturströnd Grænlands. Vonir eru einmitt bundnar við hérlendis að það kalli á þjónustu frá nálægum byggðum eins og Ísafirði.

Þessu til viðbótar er nú mikill áhugi á olíuleit við Grænland. Skoska olíuleitarfyrirtækið Cairn Energy sagði í síðustu viku að gríðarlegar olíulindir væru taldar leynast í jarðlögum við Grænland. Hefur fyrirtækið gert 310 milljóna dollara samning við Petronas á Malasíu um að vinna 10% hluta af svæði félagsisn undan strönd Grænlands. Þá hyggst Cairn Energy hefja boranir eftir olíu á Baffinsflóa 2011.

Samkvæmt rannsóknum sem fram koma í Catlin Arctic Survey mun hafið á Norðurheimsskautinu verða nánast íslaust yfir sumartímann á næsta áratug. Ísinn verði að mestu horfinn að sumarlagi fyrir 2020 og alveg horfinn innan 20 ára. Námufyrirtækin fylgjast nú mjög grant með þessari framvindu.