Prentsmiðjan Prentheimar var tekin til gjaldþrotaskipta samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í byrjun júní og er þetta fjórða gjaldþrot sömu eða tengdra aðila á síðustu átta árum.

Þeir hafa nú stofnað nýtt félag og nýja kennitölu um prentsmiðjuna sem ber nafnið PH Prent og hefur það sama heimilisfang og hið gjaldþrota félag Prentheimar í Hafnarfirði.

Fyrri gjaldþrot námu samtals hundruðum milljóna króna.

Umræddir aðilar eru í hópi þeirra sem Samtök iðnaðarins bentu sérstaklega á þegar þau gerðu átak gegn kennitöluflakki fyrir fáeinum misserum. Kennitöluflakk er það þegar eigendur keyra fyrirtæki í þrot og hefja síðan, þ.e. þeir hinir sömu, sams konar rekstur undir annarri kennitölu.

Ekki miklar eignir í búinu

Oddgeir Einarsson hdl., skiptastjóri Prentheima, segir að kröfulýsingarfrestur í búið renni út 9. ágúst og því liggi ekki fyrir hve miklar kröfur verði lýstar í það. Ekki virðist hins vegar vera miklar eignir í búinu. Þær felist helst í útistandandi kröfum.

Það var Sameinaði lífeyrissjóðurinn sem fór fram á að Prentheimar yrðu teknir til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjaness nema kröfur lífeyrissjóðsins um 4,5 milljónum króna. Áður, eða 18. mars 2009, hafði verið gert árangurslaust fjárnám hjá félaginu. Fyrr í þeim sama mánuði, eða 7. mars, stofnuðu forsvarsmenn Prentheima, líkt og áður sagði, annað félag, PH Prent, sem hefur meðal annars það hlutverk að reka prentsmiðju.

Íslandsprent í eigu sömu aðila varð gjaldþrota í fyrra og námu kröfur í það bú um 346 milljónum króna. Lítið sem ekkert hefur fengist upp í þær kröfur.

Hilmar Sigurðsson, stjórnarformaður og aðaleigandi Prentheima og  Íslandsprents, svaraði ekki fyrirspurnum blaðsins vegna umfjöllunarinnar.

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu.