Fjármálaeftirlitið (FME) hefur stillt upp fjórum mismunandi sviðsmyndum af mögulegum áhrifum á efnahag fjármálastofnana vegna nýjasta gengislánadóms Hæstaréttar. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé að krefjast mismunar á seðlabankavöxtum og samnningsvöxtum aftur í tímann, liggi fullnaðarkvittanir fyrir greiðslum af ólögmætum gengistryggðum lánum.

Yngvi Örn Kristinsson hagfræðingur ræddi dóm Hæstaréttar á morgunverðarfundi Samtaka iðnaðarins í morgun, en hann hefur unnið að úrvinnslu málsins fyrir Samtök fjármálafyrirtækja (SFF). FME hefur kallað eftir upplýsingum frá lánastofnunum og er þeim gert að skila niðurstöðum eigi síðar en 15. mars næstkomandi. „Endurreikningurinn á að leiða í ljós hvaða áhrif áðurnefndur dómur hefur á bókfært virði útlánasafna lánastofnana miðað við nokkrar sviðsmyndir. Þegar niðurstöðurnar hafa borist mun Fjármálaeftirlitið yfirfara þær fyrir hverja lánastofnun fyrir sig og því næst reikna út heildaráhrif dómsins á bankakerfið,“ segir í svari frá FME við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um málið.

Yngvi Örn fór stuttlega yfir þær aðgerðir sem þegar hefur verið ráðist í eftir að dómur Hæstaréttar féll í febrúar. SFF hafa fengið lögfræðiálit frá LEX lögmannsstofu um fordæmisgildi dómsins og stjórnvöld hafa komið á fót viðbragðshóp. Hann hefur fundað þrisvar sinnum. Yngvi Örn sagði það vel hugsanlegt að stjórnvöld láti gera lögfræðiálit líkt og gert var fyrir SFF. Þá hefur FME kallað eftir upplýsingum og leitast við að meta áhrif á fjárhag bankanna, eins og áður segir.

Yngvi Örn sagði að vandamálið sé að samningar um gengistryggð lán séu mismunandi og að greiðsluúrræði hafi verið af ýmsum toga. FME gangi út frá mismunandi forsendum í sviðsmyndum sínum um hvernig farið er með greiðsluúrræði.

Hann var spurður á fundinum hvort bankarnir hafi átt að vera betur undirbúnir við niðurstöðu Hæstaréttar. Yngvi Örn sagði svarið við því vera játandi. Hins vegar hafi menn ekki átt von á þessari niðurstöðu og hún hafi því verið óvænt.