Ragnar Árnason, prófessonar í hagfræði við Háskóla Íslands, sagði á fundi um sjávarútvegsmál í Öskju, húsi Háskóla Íslands, sl. þriðjudag að nálægt fjórðungur alls fiskveiðiafla á heimsvísu væri veiddur innan kvótakerfis í einhverri mynd.

Sagði hann að ársafli á heimsvísu væri um 80 milljónir tonna og þar af væru 20,2 milljónir hjá þjóðum sem væru með kvótakerfi við stjórn fiskveiða. Á meðal 22 þjóða sem notuðust við kvótakerfi væru stórar fiskveiðiþjóðir eins og Noregur, Kanada, Chile, Perú og Ísland.

Heitt í hamsi

Hann sagði að áhrifin af upptöku kvótakerfisins við stjórn fiskveiða hér á landi hefðu verið góð. Rekstrarafkoma hefði batnað, verð á fiskafla hefði hækkað, markaðsstarfið orðið betra og framleiðnin almennt í greininni hefði batnað mikið. Hann sagði ávinning þjóðarbússins af sjávarútvegi vera á bilinu 20 til 40 milljarða árlega eða sem nemur 1,5 til 2,5% af landsframleiðslu. "Allt sem rýrir kvótaréttindi dregur úr hagkvæmni kvótakerfisins," sagði Ragnar m.a.
Alþjóðleg rannsóknÍ erindi sínu vitnaði Ragnar til rannsóknar á vegum Alþjóðabankans og FAO þar sem fram kæmi tapið á fiskveiðum á heimsvísu væri um 5 milljarða bandríkjadollara, eða sem nemur um 580 milljörðum króna. Sagði Ragnar að arðurinn gæti hins vegar verið 45 til 50 milljarðar dollara. Rétt stjórnkerfi, líkt og væri við líði hér á landi, væri það sem skipti sköpum.

Daði Már Kristófersson, dósent í náttúruauðlindahagfræði við Háskóla Íslands, var einnig með erindi og sagði hann að kvótakerfið hefði í öllum meginatriðum reynst vel. Hann sagði enn fremur að fyrning aflaheimilda myndi hafa neikvæðar afleiðingar fyrir hagkvæmni í sjávarútvegi.

Ekki allir sammála

Ekki voru þó allir fundargestir sammála þeim Ragnari og Daða Má um ágæti kerfisins. Sérstaklega var þeim Grétari Mar Jónssyni, fyrrverandi þingmaður Frjálslynda flokksins, og Eiríki Stefánssyni heitt í hamsi. Þeir sögðu báðir að kvótakerfið hefði ekki reynst vel. Grétar Mar sagði að mun minna væri veitt nú en áður og það væri ekki til marks um ágæti kerfisins.

Eiríkur minnti á mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefði sagt kvótakerfið fela í sér mannréttindabrot. "Það er ekki hægt að hundsa það," sagði Eiríkur hátt. Hann sagði enn fremur að Björg Thorarensen lögfræðingur hefði sagt að það væri ekki hægt að hundsa þetta álit mannréttindanefndarinnar.Daði Már tók fram í upphafi erindi síns að hann ætlaði sér ekki að ræða neitt um ákvörðun um heildarafla á hverju ári.  Það væri eitthvað sem hann gæti í raun ekki tjáð sig um. Ragnar sagði að þetta álit mannréttindanefndarinnar væri ekki skuldbindandi fyrir Ísland á nokkurn hátt. Nefndin hefði auk þess klofnað í afstöðu sinni, 12 gegn 6. "Þessir sex komu frá þróuðum vestrænum ríkjum en hinir tólf frá vanþróuðum ríkjum," sagði Ragnar m.a. "Þetta er ekki boðlegt," kallaði Grétar Mar þá. Frekari botn fékkst ekki í þessa tilteknu umræðu á fundinum.