Maron Kristófersson, framkvæmdastjóri Aha.is, segir að félagið hafi verið mjög ánægt með söluna á afsláttardögum síðustu vikna í kringum bandarísku þakkargjörðarhátíðina og dag einhleypra sem Alibaba fyrirtækið hefur verið brautryðjandi fyrir 11. nóvember ár hvert. Í fyrra  hafi salan verið góð, en í ár hafi salan farið fram úr björtustu vonum.

„Svarti föstudagurinn og dagur einhleypra voru tvöfalt stærri hjá okkur í ár, en í fyrra, en aðalþunginn hjá okkur var á stafræna mánudeginum. Hann var tæplega fjórfalt stærri en árið í fyrra og sló öll met hingað til. Við horfum annars mjög til ársfjórðunga þegar við berum saman á milli ára, en þriðji ársfjórðungur í ár var tæplega 70% betri en sami tími árið 2017,“ segir Maron.

„Við byrjuðum í þessu árið 2011, en þá var jólaverslun á Íslandi að byrja mjög snemma, en síðan færðist hún aftar og aftar, en núna hefur hún aftur verið að færast framar. Kannski vegna þess að fólk hafi lært betur á netverslun, því það hafði brennt sig á því að panta of seint eða þær vörur sem það ætlaði að kaupa hafi klárast. Við sáum yfir þessa afsláttardaga mikla sölu á bókum, raftækjum, fötum, alls konar spilum og leiktækjum. Þannig seldist mjög mikið af Playstation tölvum sem við vorum með á mjög góðu tilboði í samstarfi við Nettó, en allt að þriðjungur sölunnar á mánudag voru upplifanir ýmiss konar, hótelgisting, út að borða og þess háttar.“

Helmingsaukning netverslunar milli ára

Guðmundur Magnason, forstjóri Heimkaupa, segir að netverslun fyrirtækisins hafi aukist um helming á milli ára, ef horft er á það sem af er ári. „Þess utan fáum við auðvitað þessa toppa sem eru svolítið magnaðir eins og Cyber Monday og Singles Day, en við tókum þann pól í hæðina að láta svarta föstudaginn vera, heldur snerist okkar markaðssetning um að hvetja fólk til að bíða fram á mánudag,“ segir Guðmundur sem segir það hafa verið vel heppnað.

„Við vorum til dæmis með körfu af átta vinsælum jólagjöfum sem lækkaði um 47%, og seldum við mjög mikið af bæði ryksuguróbótum og skúringavélum. Svo seldum við á þessum eina sólarhring á mánudaginn 1.159 mismunandi bókatitla, en 98% þeirra eru íslenskar bækur. Á svona tímabilum eins og eru núna, er ljóst að netverslun er að aukast og verða stærri hluti verslunarinnar, en þrátt fyrir það er þetta að hreyfast tiltölulega hægt þegar horft er á árið í heild sinni. Þessu hefur verið slegið upp sem mestu hamförum í sögu verslunar en þetta tekur tíma og það er ekkert að fara að gjörbreytast á einu eða tveimur árum.“

Metsala á stafrænum mánudegi

Óttar Örn Sigurbergsson, innkaupastjóri Elko, segir söluaukninguna hjá fyrirtækinu á netinu yfir þessa afsláttardaga hafa numið tveggja stafa tölu. „Við slógum algert met á Cyber Monday, þetta var stærsti netverslunardagurinn frá upphafi hjá okkur. Þá bættist við afsláttur á alveg heilu vörulínunum. Síðan lifðu inn á mánudaginn afslættir á þeim vörum sem ekki höfðu klárast í vikunni á undan,“ segir Óttar.

„Við höfum alltaf haldið upp á alla vikuna fyrir svarta föstudaginn en við tókum hins vegar eftir því að fólk er að færa sig meira inn á að versla á föstudeginum, og voru hinir dagarnir mun rólegri en oft hefur verið. Það var aukning á bæði netinu og af fólki sem kom í búðirnar, en við höfðum áætlað að það gæti dregið úr því á þessu ári sem ekki gerðist. En það gæti alveg gerst á næsta ári með síaukinni netverslun.“

Óttar segist ekki hafa miklar áhyggjur af samkeppni frá erlendri netverslun sem stendur, en það gæti breyst. „Ef stóru aðilarnir koma formlega til Íslands, með sína netverslun, til dæmis ef Amazon myndi opna einhvers konar vöruhús hér, og bjóða upp á flutning hingað til lands á því mikla úrvali sem þeir bjóða erlendis en hafa ekki verið að senda hingað, myndi það opna einhverjar flóðgáttir sem gæti orðið mjög erfitt fyrir íslenska markaðinn að svara,“ segir Óttar sem segir félög eins og Costco og fleiri sem ekki haldi úti netviðveru gjalda fyrir það.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .