Undanfarnar vikur hafa verið fjörugar á hlutabréfamörkuðum Norðurlandanna. Ávöxtun hefur ýmist verið mjög há eða lág á milli daga og virðist sem hvaða smáfrétt geti hreyft markaðinn, segir greiningardeild Landsbankans.

?Þrátt fyrir litlar hækkanir upp á síðkastið, hefur íslenski hlutabréfamarkaðurinn hækkað mest allra markaða á Norðurlöndunum ef litið er til síðastliðinna tólf mánaða. Úrvalsvísitalan hérlendis hefur lækkað um hátt í 3% frá byrjun maí og um rúm 2% frá ársbyrjun, en hún hefur hins vegar hækkað um tæp 34% á síðustu tólf mánuðum. Einungis norski markaðurinn kemst nálægt því að sýna eins góða ávöxtun á sama tímabili, en hann hefur hækkað um hátt í 32% undanfarna tólf mánuði," segir greiningardeildin.

Hún segir að um miðjan maí hófst óróatímabil með miklum sveiflum á mörkuðum víða um heim. ?Lítið samræmi hefur verið á ávöxtun á milli daga sem veldur töluverðum heilabrotum og er erfitt að greina undirliggjandi orsakir þessara öfgafullu sveiflna á milli daga. Vikuflökt, sem er mælikvarði á óvissu um ávöxtun hlutabréfa byggt á gögnum einnar viðskiptaviku, sveiflaðist ævintýralega mikið á þessu tímabili. Mestu sveiflurnar voru á norska markaðinum sem líklega má rekja til óvissu um þróun olíuverðs, en aðrar norrænar vísitölur sveifluðust í takt að frátaldri Úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands," segir greiningardeildin.

Þá liggja ýmsar ástæður að baki auknu flökti hlutabréfavísitalna, ?sem margar hverjar togast á og nægir að nefna aukningu verðbólguvæntinga og yfirvofandi vaxtahækkanir víða um heim. Einnig er óvissa á hrávörumarkaði auk þess sem almennur órói ríkir um þróun hlutabréfamarkaðarins. Öll þessi öfl togast á og þarf lítið til þess að titringur skapist og skiptir litlu hvað gekk á deginum áður," segir greiningardeildin.