Hannes Smárason, forstjóri FL Group, segir í samtali við danska viðskiptablaðið Börsen að félagið hafi áhuga á að auka hlut sinn í Finnair.
Ástæðuna segir Hannes að rekstur Finnair passi vel við rekstur Icelandair. FL Group á 6,3% hlut í Finnair

"Finnair og Icelandair bæta hvort annað upp mun frekar en að keppa við hvort annað," segir Hannes. "Ef finnska ríkið myndi selja hlutinn sinn, þá höfum við áhuga."

Einnig segir Hannes að FL Group, sem gekk formlega frá kaupunum á Sterling í Kaupmannahöfn í gær, eigi möguleika á nánara samstarfi Sterling og easyJet, en FL Group á um 16% hlut í breska lággjaldaflugfélaginu.