FL Group hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir lýsa sig ósammála niðurstöðu Kauphallarinnar um áminningar, en eins og greint var frá áminnti Kauphöllin FL Group opinberlega fyrr í dag.

Í yfirlýsingu FL Group segir að félagið telji forsendur Kauphallarinnar á misskilningi byggðar og niðurstöðuna ekki nægilega vel rökstudda. Í yfirlýsingunni segir svo orðrétt:

„Í tilfelli sölu hlutabréfa í AMR í lok nóvember 2007 var ákveðið að tilkynna um viðskiptin á sama tíma í New York Stock Exchange, heimamarkaði hlutabréfanna og á OMX. Í tilfelli sölu bréfa í Commerzbank var um að ræða sölu á stórum eignarhluta í mörgum smáum skömmtum yfir margra vikna tímabil. Uppsöfnuð viðskipti voru tilkynnt OMX í samræmi við lög og reglur þar um, að mati FL Group.

FL Group telur að í báðum tilvikum hafi verið staðið fullkomlega eðlilega að umræddri upplýsingagjöf, samkvæmt lögum og reglum og með hagsmuni félagsins og hluthafa þess að leiðarljósi.“

Þá segir FL Group jafnframt að Kauphöllin hafi enga heimild til að taka ákvörðun um „beitingu opinberrar áminningar“. Hvergi í reglum Kauphallarinnar, samningum hennar við útgefendur, lögum eða reglum sé kveðið á um slíka heimild.