Dennis Kurt Jung er framkvæmdastjóri The Reykjavík EDITION hótelsins, fyrsta fimm stjörnu hótels höfuðborgarsvæðisins. EDITION er vörumerki sem rekur 12 hótel víða um heim, auk þess sem unnið er að opnun sjö til viðbótar. Vörumerkið er samstarfsverkefni Ian Schrager, stofnanda næturklúbbsins sáluga Studio 54 í New York, og Marriott-hótelkeðjunnar. The Reykjavik EDITION var opnað í síðustu viku með formlegum hætti, en nokkur töf hefur orðið á opnun þess, m.a. vegna heimsfaraldursins.

Dennis býr yfir alþjóðlegri reynslu úr hótelgeiranum og hefur búið víða um heim starfa sinna vegna. „Ferðageirinn hefur löngum heillað mig en ég var svo lánsamur að ferðast mikið á mínum yngri árum með foreldrum mínum. Á þessum ferðalögum kynntist ég og fékk áhuga á mismunandi menningarheimum," segir hann.

Því hafi legið beinast við að nema hótelfræðin og eftir útskrift úr hótelstjórnun árið 1997 hóf Dennis störf sem lærlingur á hóteli í Wiesbaden í Þýskalandi og síðar á hótelum í Frankfurt og Berlín. Síðar lagði hann svo land undir fót og fluttist til Asíu þar sem hann gegndi hinum ýmsu stöðum á hótelum í Peking, Shanghai og Singapúr. Árið 2010 gekk Dennis svo til liðs við hótelkeðjurisann Ritz-Carlton og fluttist til Moskvu til að starfa á hóteli á þeirra vegum þar í borg.

„Ég starfaði þar í fjögur ár áður, þar til ég fékk boð um að færast til í starfi innan Ritz-Carlton og flytjast til Miami. Það má segja að ég hafi farið úr einum öfgum í aðrar veðurfarslega séð, þar sem veturnir í Moskvu eru gífurlega kaldir á meðan það er sól allan ársins hring á Miami. Einhverju síðar var Ritz-Carlton að opna nýtt hótel í Kasakstan og þá var ég beðinn um að flytja þangað til að stýra nýja hótelinu, sem og ég gerði."

106 af 253 herbergjum opin til að byrja með

Í lok árs 2019 var Dennis boðið að stýra The Reykjavík EDITION hótelinu og flutti þá búferlum til Íslands. Þar með lauk 12 ára veru hans innan raða Ritz-Carlton. Undanfarin tvö ár hefur hann því verið hluti af teymi sem unnið hefur hörðum höndum við að undirbúa opnun The Reykjavík EDITION hótelsins í Austurhöfn. „Það hefur verið í mörg horn að líta og ýmsar áskoranir orðið á vegi okkar. Sú stærsta hefur auðvitað verið Covid-19 heimsfaraldurinn."

The Reykjavík EDITION hótelið var opnað 12. október sl. Til að byrja með mun þó einungis hluti af þeim 253 herbergjum, sem finna má á hótelinu, vera opinn.

„Okkur þótti hentugt að opna aðeins hluta hótelsins núna meðan faraldurinn er enn í gangi og opna svo jafnt og þétt á stærri skala meðan eftirspurnin tekur almennilega við sér. Til að byrja með verða tvær hæðir af fimm opnar gestum, alls 106 herbergi. Þá verða hótelbar, veitingastaður, kokteilbar og kaffihús á jarðhæð hótelsins opin. Aftur á móti munu næturklúbburinn í kjallaranum, heilsulindin og þakbarinn opna eftir nokkra mánuði."

Nánar er rætt við Dennis Jung í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .