Regína Bjarnadóttir hefur verið ráðin sem forstöðumaður greiningardeildar Arion banka. Regína hefur undanfarin sex ár starfað sem hagfræðingur á hagfræðisviði Seðlabankans, einkum við greiningu á greiðslujöfnuði og erlendri skuldastöðu þjóðarbúsins. Regína segir að nýja starfið leggist ljómandi vel í sig. „Ég er mjög spennt að fá að taka þátt í þeirri frábæru vinnu sem unnin er í greiningardeild Arion banka. Einnig verður gaman að fara aftur yfir í einkageirann.“

Regína er með meistarapróf í þróunarhagfræði frá University of London í Englandi og útskrifaðist þaðan árið 2000. Fyrstu árin eftir útskrift vann hún í einkageiranum, fyrst sem ráðgjafi hjá enska bankanumR. Raphael og Sons, sem var í eigu þáverandi Íslandsbanka. Íslandsbanki hafði nýlega hlotið leyfi fyrir eignastýringu í Englandi þegar hún hóf störf og var hún með í því að þróa starfsemina.

Á árunum 2001 til 2005 vann hún hjá CRU Group, fyrst sem hagfræðiráðgjafi hjá CRU Analysis þar sem hún vann að mánaðarlegum ritum um stöðu álmarkaða auk þess sem hún vann að sérverkefnum um álmarkaði. Svo starfaði hún sem hagfræðisérfræðingur hjá CRU Strategies, sem vinnur að sérverkefnum á sviði málma og orku. Vann hún m.a. að hagkvæmniathugunum fyrir orkufrekan iðnað og að skýrslu um möguleg áhrif Kyoto-sáttmálans á iðnað í Evrópu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .