Markaðsverðmæti skráðra félaga í Kauphöllinni hefur aukist um 50% á síðastliðnum þremur til fjórum árum. Það nemur nú rúmum 380 milljörðum króna, að sögn Páls Harðarsonar, forstjóra Kauphallarinnar. Hann sagði við skráningu Fjarskipta, rekstrarfélags Vodafone, á markað í morgun horfur á að félögum muni fjölga frekar á markaði.

Skráning Fjarskipta var þriðja Kauphallarskráningin á árinu. Þá var hún sú fjórða frá hruni en hlutabréf Haga-samstæðunnar voru tekin til viðskipta í Kauphöllinni í desember á síðasta ári.

Gengi hlutabréfa Fjarskipta stóð í 32,5 krónum á hlut í fyrstu viðskiptum dagsins. Það jafngildir 3,17% hækkun frá hlutafjárútboði. Það stendur nú í 32,2 krónum á hlut.