Borið hefur á aukningu á innköllunum og gjaldþrotum að undanförnu. Viðskiptablaðið birtir lista yfir innkallanir og gjaldþrot fyrirtækja í dagbók blaðsins þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga. Hefur umfang dagbókarinnar vaxið nokkuð síðustu vikur.

Fjöldi tilkynninga um gjaldþrot og innkallanir í Lögbirtingablaðinu hafa aukist, að sögn Önnu Birnu Þráinsdóttur, sýslumanns í Vík, en embættið sér um útgáfu Lögbirtingablaðsins fyrir hönd dómsmálaráðuneytisins.

Sýslumannsembættið hafði þó engar tölur tiltækar um aukningu gjaldþrota. „Við höfum líka orðið vör við aukinn áhuga almennings á þessum málum. Venjulega sækja tveir til þrír um áskrift að Lögbirtingablaðinu á dag en undanfarna daga hefur áskriftarhópurinn vaxið um tuttugu til þrjátíu á dag og er það rakið til aukinnar fjölmiðlaumræðu um málið,” segir Anna Birna.

Helgi Jóhannesson, hæstaréttarlögmaður, sagðist í samtali við Viðskiptablaðið einnig hafa orðið var við aukningu gjaldþrotamála.

Þykir umrædd aukning m.a. benda til þess að óstöðugt efnahagsástand komi illa niður á litlum fyrirtækjum en þeim hefur fjölgað mjög síðustu ár.

Tilkynningar um skiptalok ber að birta í Lögbirtingablaðinu.

Í lögum um gjaldþrotaskipti segir að skiptastjóri skuli án tafar gefa út og birta innköllun varðandi gjaldþrotið. Við innköllun er skorað á lánadrottna og aðra sem telja sig eiga kröfur á hendur búinu eða til muna í vörslu þess að lýsa kröfum sínum fyrir skiptastjóra með sendingu eða afhendingu kröfulýsinga á tilteknum stað innan tveggja mánaða að jafnaði.

Á heimasíðu Dómstólaráðs má sjá tíðni gjaldþrotaskiptabeiðna á Íslandi undanfarin tíu ár. Gjaldþrotaskiptabeiðnir náðu hámarki á tímabilinu árið 2003 en þá voru þær 2680 talsins. Beiðnum tók að fækka eftir það og  árið 2007 voru gjaldþrotaskiptabeiðnir mun færri, eða 1864. Nú er spurning hvort þeim fari aftur að fjölga.