„Við höfum tekið eftir því að fólk og fyrirtæki hafa eytt stórfé vegna fasteignagallamála, jafnvel allt að hálfri milljón króna, áður en það liggur fyrir hvort mál þeirra telst tækt til að halda áfram. Við höfum nú stytt leiðina,“ segir Tómas Hrafn Sveinsson, hæstaréttarlögmaður hjá Bonafide. Lögmannsstofan hefur í samstarfi við Frumherja sett á laggirnar þjónustu fyrir fólk, fyrirtæki og húsfélög vegna fasteignagallamála. Vefsíða Bonafide og Frumherja, www.galli.is , fór í loftið í dag.

Tómas segir mat á mat á göllum fasteigna og lögfræðileg ráðgjöf í kjölfarið hafa hingað til verið flókið og tímafrekt ferli. Með samstarfinu við Frumherja sé ferlið einfaldara, fljótvirkara og þjónustan ódýrari.

Staðreyndin er sú að núverandi fyrirkomulag gerir kröfur til mikilla starfa af hálfu lögmanna, byggingatæknifræðinga og eftir atvikum dómkvaðningu matsmanna. Það fellir því óhjákvæmilega mikinn kostnað á málið, án tillits til hagsmuna sem undir eru. Með þessu samstarfsverkefni erum við að gera tilraun til þess að finna lausnir í gallamálum á ódýrari og skjótvirkari hátt en nú þekkist, helst án þess að komi til kasta dómstóla. Það er von okkar að geta þróað verkefnið áfram með fasteignasölum og tryggingarfélögum, svo ljúka megi fleiri málum utan réttar en nú er,“ segir Tómas.

Úrræðin þurfa að vera skýr

Um neytendamál er að ræða, að hans mati. „Ráðgjöf okkar er fyrst og fremst ætlað að veita heildstæða mynd af þeim úrræðum sem í boði eru fyrir fast verð til einstaklinga, þ.e. vegna galla á heimilum þeirra. Ef upp kemur galli í fasteign skiptir miklu máli að ráðgjöf um möguleg úrræði sé skipuleg og skýr. Við teljum að strax í upphafi þurfi að meta fasteignina af sérfræðingum og veita lögfræðilega ráðgjöf í framhaldinu,” segir hann.

Galli.is býður stærri aðilum eins og fasteignafélögum, þ.e. vegna atvinnuhúsnæðis og húsfélögum að gera tilboð um skoðun og lögfræðiráðgjöf. Frumherji hefur sinnt fasteignaskoðun frá lokum árs 2010 og frá þeim tíma hafa skoðunarmenn Frumherja skoðað mikinn fjölda fasteigna fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki.