Um 36 verslunum Adams Kids í Bretlandi og Írlandi verður lokað á næstu vikum og starfsmönnum þeirra, sem eru tæplega 270, öllum sagt upp.

Frá þessu er greint á vef BBC en Adams Kids var nýlega sett í gjörgæslu endurskoðunarfyrirtækisins PricewaterhouseCoopers vegna greiðsluörðugleika.

Í byrjun mánaðarins var 111 verslunum keðjunnar lokað og um 850 manns sagt upp störfum.

Þá eru eftir 125 verslanir og um 1.900 starfsmenn en samkvæmt tilkynningu frá PricewaterhouseCoopers verða þær opnar áfram þangað til annað kemur í ljós en unnið er að því að selja reksturinn.