*

miðvikudagur, 27. október 2021
Innlent 20. ágúst 2021 16:29

Flest hækkuðu en OMXI10 lækkaði

Eimskip bar höfuð og herðar yfir önnur skráð félög á aðalmarkaði kauphallarinnar í dag.

Ritstjórn

Eimskip bar höfuð og herðar yfir önnur skráð félög á aðalmarkaði kauphallarinnar í dag. Þrátt fyrir að nærri þrjú af hverjum fjórum félögum hafi hækkað í viðskiptum dagsins lækkaði OMXI10 vísitalan um rúmlega hálft prósent.

Líkt og fjallað var um af Viðskiptablaðinu í morgun fór Eimskip vel af stað þegar markaðir opnuðu. Þegar mest lét hafði gengi bréfa félagsins hækkað um rúm tíu prósent en við lokun nam hækkunin 8,93%. Þá var mest velta með bréf félagsins, alls 1.136 milljón krónur.

Fjögur félög til viðbótar hækkuðu um meira en tvö prósent. Origo hækkaði um 2,34% og þá hækkuðu Icelandair, Síldarvinnslan og Iceland Seafood um rétt rúm tvö. Skeljungur hækkaði um 1,69% og Sjóvá um 1,40%. 

Bæði Kvika og Eik hækkuðu um rúmlega 0,60% og Íslandsbanki tæpt hálft prósent. Hækkun VÍS, Símans, Reita og Brims var minni og Arion stóð í stað. 

Fimm félög lækkuðu en mest var lækkunin hjá Festi, það er 1,24%. Á hæla þess fylgdi Marel, 1,15%, og Hagar með tæpt prósent. Reginn lækkaði um 0,67% og Sýn um 0,23%. Alls áttu 284 viðskipti sér stað í dag, flest með bréf Íslandsbanka en Eimskip fylgdi þar á eftir. Heildarvelta var 3,8 milljarðar króna.

Líkt og fyrr segir lækkaði OMXI10 vísitalan í dag. Hún inniheldur þau tíu félög sem mest viðskipti eru með og er samsetning hennar uppfærð tvisvar á ári. Eimskip er ekki eitt þeirra félaga sem hefur áhrif á hana og lækkun Marels, Festi og Haga hafi togað hana niður þótt sex hinna félaganna hafi hækkað.