Fleiri fjölmiðlanotendur treysta RÚV og RÚV.is meira en nokkrum öðrum fjölmiðlum, samkvæmt nýrri könnun MMR. Könnunin var gerð dagana 26.-28. nóvember 2013

Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 76,5% bera mikið traust til Fréttastofu RÚV og og 71,1% sögðust bera mikið traust til ruv.is.

Í flokki netfréttamiðla naut mbl.is næst mest trausts meðal almennings (á eftir ruv.is). Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 50,2% bera mikið traust til mbl.is. Traust til mbl.is hefur dregist nokkuð saman frá því í desember 2008 þegar 64,0% aðspurðra sögðust bera mikið traust til mbl.is.

Netfréttamiðillinn Visir.is naut einnig nokkurs traust meðal svarenda og hefur traust til Visir.is aukist frá maí 2009 þegar 24,4% þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera mikið traust til Visir.is, borið saman við 35,3% nú.

Þeir prentmiðlar sem nutu mest trausts meðal almennings voru Morgunblaðið og Fréttablaðið. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 46,4% bera mikið traust til Morgunblaðsins en 39,2% sögðust bera mikið traust til Fréttablaðsins. Hlutfallslega fleiri sögðust bera lítið traust til Morgunblaðsins en til Fréttablaðsins. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 26,1% bera lítið traust til Morgunblaðsins en 20,7% sögðust bera lítið traust til Fréttablaðsins. Traust til Morgunblaðsins hefur minnkað nokkuð frá desember 2008 þegar 64,3% sögðust bera mikið traust til Morgunblaðsins.

Traust til Viðskiptablaðsins hefur aukist nokkuð frá því í maí 2009 þegar 21,8% þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera mikið traust til Viðskiptablaðsins, borið saman við 30,6% nú.

963 einstaklingar svöruðu könnuninni sem gerð var dagana 26.-28. nóvember 2013. Um var að ræða þátttakendur sem voru valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR.