Loftleiðir, dótturfélag Icelandair, hefur lagt inn beiðni til samgönguráðuneytis Bandaríkjanna um leyfi fyrir vikuleg flug á milli Orlando í Flórída fylki og Havana, höfuðborgar Kúbu, frá byrjun október og út desembermánuð. Um er að ræða leiguflug fyrir Anmart Air, í eigu ferðaheildsalans Anmart Superior Travel, en þau verða þrettán talsins, að því er kemur fram í grein á vefsíðunni One Mile at a Time .

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir þetta sé fyrsta skrefið í samstarfi við Anmart en viðræður standa yfir um að stækka samstarfið og bæta við flugum. Samstarfið sé til þess fallið að bæta nýtingu flugvélanna í áætlunarflugum til Orlando.

Ásdís bætir við að einnig hafi Loftleiðir samið um flug ámilli Punta Arenas í Chile og Union Glacier á Suðurskautslandinu, meðal annars fyrir fólk sem hyggst ganga á Suðurpólinn. Þar að auki séu tvær ferðir fyrirhugaðar til Troll á Suðurskautslandinu fyrir rannsóknarstofnunina Norwegian Polar Institute.

Hugmyndin um leiguflug á milli Bandaríkjanna og Kúbu er ekki ný af nálinni, að því er kemur fram í framangreindri grein, en Icelandair yrði þó með mest „framandi“ flugfélögum til að bjóða upp á þessa þjónustu. Leiguflugið gerir Icelandair kleift að ná betri nýtingu á flugvélunum sem fara til Orlando í vetur. Icelandair er með eftirfarandi tvo áætlunarflug á viku til Orlando í vetraráætlun sinni:

  • FI689 Keflavík til Orlando, mánudaga og föstudaga; brottför 17:15, koma 21:00
  • FI688 Orlando til Keflavíkur, miðvikudaga og laugardaga; brottför 18:45, koma 06:00

„Líkt og sjá má, þá er nýting flugvélanna hérna afar óskilvirk, þar sem vélin situr á jörðinni í 46 klukkutíma fyrri hluta vikunnar og um 22 klukkutíma seinni hluta vikunnar,“ segir í grein One Mile at a Time.

Þá segir að fremur en að einblína á að hámarka nýtingu flugvéla, leggi Icelandir meira púður í leiðakerfi sitt. Einnig veldur fjarlægðin til Orlando því að Icelandair eigi ekki kost á að koma flugvélum sínum aftur til Keflavíkur í tíma fyrir flug á aðra áfangastaði. Fyrir vikið standi vélarnar oft í 20-22 klukkutíma á fjarlægustu flugvöllunum í Bandaríkjunum líkt og í Orlando, Portland og Seattle.