Delta Air Lines byrjar að fljúga daglega milli Íslands og þriggja borga í Bandaríkjunum í maí næstkomandi. Þar á meðal er Boston, sem er nýr áfangastaður. Hinar borgirnar eru New York og Minneapolis/St. Paul, en þangað hefur Delta flogið undanfarin ár ef 2020 eru undanskilið.

Í fréttatilkynningu Delta segir að ákvörðunin um að hefja daglegt flug milli Bandaríkjanna og Íslands byggir á því að Ísland er fyrsta Evrópulandið til að heimila komu bandarískra ferðamanna sem hafa fengið fulla bólusetningu án þess að þeir þurfi að fara í sóttkví.

Delta mun fjúga daglega til New York kl. 11:15 frá og með 1. maí. New York flugið mun notast við 168 sæta Boeing 757-200 þotu sem býður upp á Delta One farrýmið. Flogið verður til Boston daglega með 193 sæta Boeing 757-200 þotu frá og með 20. maí. og er dagleg brottför frá Keflavík kl. 10:15. Til Minneapolis/St. Paul verður flogið daglega kl. 9:30 frá og með 27. maí með 193 sæta Boeing 757-200.

„Við vitum að viðskiptavinir okkar eru spenntir fyrir því að komast með öruggum hætti aftur út í heim. Eftir því sem traust á ferðalögum eykst, þá vonumst við til að fleiri lönd opni fyrir bólusettum ferðamönnum og skapi þannig aukin tækifæri fyrir fólk til að tengja og upplifa,“ segir Joe Esposito, framkvæmdastjóri leiðakerfisstýringar Delta Air Lines.

Farþegar Delta frá Bandaríkjunum þurfa að færa sönnur á fullri bólusetningu eða að þeir hafi náð sér af Covid-19 sýkingu. Farþegar til Bandaríkjanna munu þurfa að sýna neikvæða niðurstöðu úr Covid-19 skimun.