Aukin samkeppni og lækkanir á meðalfargjöldum umfram það sem spáð hafði verið valda því að flugfélög víða um heim hafa skilað umtalsvert minni hagnaði en áður. Hér á landi berst Icelandair við breyttar aðstæður á markaði þar sem lággjaldaflugfélögin virðast vera að taka völdin.

Líkt og frægt er orðið hríðféll gengi hlutabréfa Icelandair Group um 23,98% í 1,4 milljarða króna viðskiptum í síðustu viku eftir að félagið birti afkomuviðvörun sína. Þrátt fyrir að lækkunin hafi verið einstök í umfangi sínu þá hefur gengi hlutabréfa félagsins einnig lækkað jafnt undanfarið eða sem nemur 55% á síðustu 12 mánuðum.

Í tilkynningunni tilgreinir félagið ýmsar ástæður fyrir spánni, bókanir eru hægari en gert var ráð fyrir og meðalfargjöld á mörkuðum hafa lækkað umfram spár. Þessa þróun megi einkum rekja til aukinnar samkeppni en einnig megi leiða líkur að því að óvissa vegna breytinga í alþjóðastjórnmálum hafi áhrif á eftirspurn. Að auki hafa gjaldmiðlar þróast á óhagstæðan máta miðað við fyrra ár, olíuverð hefur hækkað og verkfall í sjávarútvegi hefur neikvæð áhrif á fraktstarfsemi félagsins.

Stóru flugfélögin í vanda

Við nánari skoðun verður ljóst að vandinn sem Icelandair glímir við um þessar mundir er alls ekki einstakur. Hagnaður flugfélaga víða um heim hefur dregist saman milli ára og orsakast það m.a. af lækkun á meðalfargjöldum umfram spár. Lækkunin stafar m.a. af mikilli fjölgun flugfélaga, og þá sérstaklega lággjaldaflugfélaga.  Þar sem fólk í heiminum ferðast nú í auknum mæli með flugvélum virðist af afleiðingin af samkeppninni að jafnaði ekki vera að skila sér í verri sætanýtingu.

Fólk er þvert á móti að ferðast meira en fyrir minni pening sem hefur m.a. valdið því að hagnaður félaganna hefur dregst saman milli ára. Stór bandarísk flugfélög á borð við United Airlines og American  Airlines skiluðu til að mynda helmingi minni hagnaði í fyrra en árið áður. Það sama má segja um Singapore Airlines, eitt af stærstu flugfélögum Asíu, sem skilaði 70 prósentum minni hagnaði á seinni hluta árs 2016 en árið 2015.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.