Stjórn Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) er ekki tilbúin til að skerða kjör flugfreyja og flugþjóna til frambúðar þar sem ekki er svigrúm til frekari skerðingar hjá félagsmönnum. Þetta kemur fram í bréfi Guðlaugar Líneyar Jóhannsdóttur, formanns FFÍ til flugfreyja og flugþjóna Icelandair og Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Á föstudag greindi Icelandair frá því að félagið hygðist fara í hlutafjárútboð á næstunni til að tryggja samkeppnishæfni félagsins til frambúðar. Í tilkynningu frá félaginu kom hins vegar fram að útboðið sé háð því að viðræður við stéttarfélög skili árangri. Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um á föstudag er unnið að því að endursemja við starfsmenn félagsins til að ná niður launakostnaði sem er hærri en hjá flestum keppinautum félagsins.

Í bréfinu sem Guðlaug skrifar fyrir hönd stjórnar FFÍ segir vandasamir og þungir tímar séu nú hjá flugfreyjum og flugþjónum á Íslandi vegna þeirra stöðu sem uppi er í flugi í heiminum vegna útbreiðslu COVID-19. Sú staðreynd að á aðeins nokkrum vikum hafi dregið úr öllu flugi í heiminum hafi leitt til þess að allir félagsmenn séu nú í skertu starfshlutfalli og hafi tekið á sig töluverða launaskerðingu. Þá geti engum dulist að staða Icelandair sé slæm og hefur stjórn FFÍ lagt áherslu á samvinnu við flugfélagið í krísunni til þess að verja störf og kjör félagsmanna sinna.

Kjarasamningar FFÍ við Icelandair og Air Iceland Connect, sem nú hafa verið sameinuð, hafa verið lausir frá því um áramótin 2018/2019 og hafa þær deilur verið lengi á borði Ríkissáttasemjara án árangurs. Í bréfinu segir að á sama tíma hafi verið samið  við nánast alla aðra aðila á almennum vinnumarkaði með lífskjarasamningum og einnig hafi verið samþykkt styttri vinnuvika fyrir fólk í vaktavinnu. Á sama tíma hafi flugfreyjur og flugþjónar ekki notið neinna kjarabóta í tvö ár.

Þá segir einnig að ljóst sé að endurreisn íslenskrar ferðaþjónustu muni ekki verða byggð á launaskerðingu verkafólks. Fjölmiðlum og stjórnendum Icelandair sé tíðrætt um háan launakostnað flugstétta en stjórn FFÍ furðar sig á slíkum staðhæfingum þar sem félagsmenn búi nú við grunnlaun sem ekki séu há og hafi verið skert.

Þess má geta að á meðan Icelandair flýgur lítið sem ekki neitt og nýtir sér hlutabótaleið stjórnvalda miðast laun við grunnlaun en heildarlaun bæði flugfreyja, flugþjóna og flugmanna, standa einnig saman á dagpeningum og greiðslum fyrir flugtíma sem mynda þó nokkurn hluta heildarlauna hvers mánaðar.

Þá vill stjórn FFÍ einnig árétta að félagsmenn þeirra starfi á íslenskum vinnumarkaði þar sem dýrt sé að búa og því sé samanburður við launakostnað erlendra flugfélaga ómarktækur.

Í niðurlagi bréfsins segir að stjórn FFÍ sé reiðubúin til að veita sanngjarnar tilslakanir á nokkrum atriðum í kjarasamningi til að koma til móts við stöðuna á þessum fordæmalausu tímum og hefur FFÍ þegar gert undanþágur á síðustu vikum. Eins og áður segir er stjórn FFÍ hins vegar ekki tilbúin til þess að skerða kjör flugfreyja og flugþjóna til frambúðar enda sé ekki svigrúm hjá félagsmönnum til frekari skerðinga.