Hlutabréf í Flugleiðum hækkuðu um 6,8% í 109 m.kr. viðskiptum í Kauphöll Íslands í gær. Samtals hefur því gengi bréfa í félaginu hækkað um 11,6% frá áramótum og er það mesta hækkunin af þeim félögum sem eru í Úrvalsvísitölunni. "Eins og fram kom í umfjöllun okkar um Flugleiði í nýlega birtri afkomuspá þá setja stjórnendur félagsins stefnuna á innri sem ytri vöxt," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

"Ágætis gangur er í rekstrinum m.v. sumpart versnandi ytri skilyrði og félagið hefur einnig greiðan aðgang að nýju hlutafé eins og kom á daginn seint á síðasta ári. Metnaður stjórnenda Flugleiða stendur til að yfirtaka erlent flugfélag og hugsanlega endurspegla hækkanir á gengi Flugleiða að hluta væntingar fjárfesta um yfirtöku innan tíðar. Nærtækasta skýringin er þó að 10,1% eignarhlutur í breska lágfargjaldaflugfélaginu easyJet hefur ávaxtast vel frá því í haust eða um 2,2 ma.kr. sem er nálægt því að vera sá hagnaður sem við spáum að Flugleiðir skili á síðasta ári en gengishagnaður af bréfum í easyJet er ekki þar á meðal. Bréf í easyJet hafa hækkað um 9,2% frá áramótum og er óinnleystur gengishagnaður Flugleiða vegna þessa rúmlega 800 m.kr," segir í Morgunkorninu.