Alcoa hefur sent frá sér fréttatilkynningu um niðurstöður flúormælinga í grasi í Reyðarfirði eftir sumarið 2014.

Segir í tilkynningunni að alls séu framkvæmdar sex mælingar; tvær í mánuði í júní, júlí og ágúst. Meðaltal þessara mælinga fyrir flúor í grasi er það sem borið er saman við viðmiðunarmörkin sem sett eru í vöktunaráætlun og eru 40 µg F/g gras. Þau mörk segja til um hvort frekari eftirfylgni og rannsókna er þörf eða ekki.

Meðaltal sumarsins 2014 er 30,8 µg samanborið við 37,8 µg sumarið 2013 og 52 µg sumarið 2012.

Tæknilegar bilanir hjá álverinu árið 2012 urðu þess valdandi að flúor í gróðri fór yfir viðmiðunarmörk og voru þess vegna settar af stað ýmsar aðgerðir til að koma í veg fyrir að slíkt myndi gerast aftur.

Í fréttatilkynningunni segir að Alcoa setji sér mjög strangar kröfur í umhverfismálum og umhverfisvernd sé þungamiðja í starfsemi fyrirtækisins um allan heim. Fyrirtækið muni áfram vinna að stöðugum umbótum og sé meðvitað um hlutverk sitt að lágmarka þau áhrif sem starfssemin hefur á umhverfið.