Síminn hefur stofnað fjölmiðlafyrirtæki í Lúxemborg, Síminn Media, og að öðru óbreyttu mun þetta fyrirtæki sjá um alla framleiðslu á eigin sjónvarpsefni og innkaup á erlendu efni fyrir fyrirtækið. Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri miðla og markaða, staðfestir þetta við Viðskiptablaðið.

Hann segir ástæðuna vera að regluumhverfi fjölmiðlareksturs sé í algeru uppnámi á Íslandi og vísar m.a. til nýlegs álits fjölmiðlanefndar, sem Póst- og fjarskiptastofnun óskaði eftir. Í stuttu máli kemst fjölmiðlanefnd að þeirri niðurstöðu að hluti fjölmiðlalaga sem lýtur að flutningsrétti og -skyldum taki ekki einungis til sjónvarpsútsendingar, heldur einnig til ólínulegrar myndmiðlunar.

„Álit fjölmiðlanefndar skapar algera reglugerðaróvissu og myndi í ýktustu mynd þýða að höfundarréttur væri í uppnámi og að framleiðendur hefðu enga stjórn á hagnýtingu eigin hugverka.“ Hann segir að til dæmis gæti þetta þýtt að Símanum væri skylt að afhenda keppinautum allt efni til sýningar um leið og það er sýnt á miðlum Símans. „Svona óvissa kippir algerlega fótunum undan áætlunum okkar um sjálfstæða myndefnisframleiðslu,“ segir Magnús.