Fjárfestar leita nú í öryggi skuldabréfasjóða í meira mæli en þeir hafa gert síðan í fjármálakrísunni fyrir áratug. Tæpir 500 milljarðar dala – ígildi um 60 þúsund milljarða króna – voru færðir í slíka sjóði á fyrri helmingi ársins.

Financial Times segir tollastríð, áhyggjur af niðursveiflu og almennan óstöðugleika á mörkuðum helstu ástæðurnar.

Fjárflæði í skuldabréfasjóði á fyrri helmingi síðasta árs nam rétt tæpum 150 milljörðum dala, og hefur því rúmlega þrefaldast milli ára. Eignir í stýringu slíkra sjóða hafa tvöfaldast síðan 2010 og nema nú 9.400 milljörðum dala.

Haft er eftir sérfræðingi í skuldabréfamörkuðum að viðsnúningur peningastefnu stærstu seðlabanka heims, í átt til aukins slaka, geri skuldabréf meira aðlaðandi valkost en áður.