Frá og með fyrsta júní næstkomandi mun sænska lággjaldaflugfélagið FlyMe hefja beint flug á milli Gautaborgar og Barcelona, segir í tilkynningu frá félaginu.

Í kjölfarið verða áætlanir flugfélagsins um að fljúga frá Gautaborg til Dusseldorf í Þýskalandi settar á ís í einhvern tíma. Eingarhaldsfélagið Fons á rúmlega 20% hlut í FlyMe.

Í fréttatilkynningu frá félaginu segir Fredrik Skanselid, forstjóri FlyMe, að þessi ákvörðun hafi verið tekin eftir að ljóst varð að mun meiri eftirspurn er eftir ferðum til Barcelona heldur en til Dusseldorf.

Flug FlyMe til Dusseldorf átti að hefjast þann 30. mars næstkomandi ásamt ellefu öðrum nýjum áfangastöðum í Evrópu. Hinar flugleiðirnar verða opnaðar með vorinu og telja áfangastaðina París, Alicante, Krít, Amsterdam, Prag, Nice, Róm,London, Rhodos, Palma og Malaga.