Í athugasemd FME sem birt var í dag segir að skrif Skjóðunnar, nafnlauss pistlahöfundar sem skrifar í Markaðinn, viðskipta- og fjármálablað Fréttablaðsins, séu misvísandi og hafi það að markmiði að kasta rýrð á störf Fjármálaeftirlitsins.

Í pistli Skjóðunnar er fullyrt um að Fjármálaeftirlitið sé í raun fátt annað en sóun á fjármunum, og að öryggið sem FME veiti sé falskt. Fyrirsögn Skjóðunnar er enn fremur „Fullkomlega gagnslaust Fjármálaeftirlit.”

Í andsvari FME segist eftirlitið hafna umfjölluninni, og telur þá upp að verklag þess sé gjörbreytt frá því sem áður var. Þá séu skýr lagaákvæði um fjárhagsstöðu tryggingarfélaga og afskipti sem FME má hafa af þeim.

Þó lætur eftirlitið það ósnert að hrekja einstakar rangfærslur skjóðunnar frekar, en vísar frekar til fyrri skrifa - svars til FÍB þann 7. mars og greinar um bótasjóði sem rituð var þann 15. mars þar sem FME fjallar um hugtakið bótasjóð og missagnir FÍB um arðgreiðslur og bótasjóðsskyldur tryggingarfélaganna.