Allar ábendingar og kvartanir sem berast Fjármálaeftirlitinu (FME) eru metnar og skoðað hvort tilefni sé til nánari athugunar. Telji Fjármálaeftirlitið ástæðu til að taka mál til athugunar er það gert á grundvelli almenns eftirlits, þ.e. hvort starfsemi viðkomandi eftirlitsskylds aðila sé í samræmi við lög, reglur og eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti.

Þetta kemur fram á vef FME í dag en þar eru þeir sem starfa hafa fyrir eftirlitsskyldan aðila og hafa tekið eftir hugsanlegu misferli eru hvattir til að upplýsa um slíkt en Fjármálaeftirlitið hefur fyrir nokkru komið á fót sérstakri síðu fyrir slíkar ábendingar, sem nefnist Gjallarhornið.

„Fólk er hvatt til þess að koma fram undir réttu nafni, en Fjármálaeftirlitið tekur þó einnig við nafnlausum ábendingum,“ segir á vef FME.

„Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á trúnað við þá sem koma fram með ábendingar, en getur þó ekki ábyrgst nafnleynd, ef lög mæla fyrir um annað. Þess skal þó getið að starfsmenn Fjármálaeftirlitsins eru bundnir ríkri trúnaðarskyldu um allt það sem þeir komast að í störfum sínum.“

Sjá nánar á vef FME .