Fjármálaeftirlitið hefur sektað HS Orku hf. um 3,4 milljónir króna vegna brots fyrirtækisins á lögum um verðbréfaviðskipti. Fjármálaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu hefði brotið fyrrgreind lög með því að hafa ekki skilað listum yfir fruminnherja og fjárhagslega tengda aðila til Fjármálaeftirlitsins á tímabilinu 13. október 2012 til 1. júlí 2013, eða í tvö skipti.

Fram kemur í tilkynningu á vef Fjármálaeftirlitsins að við ákvörðun sektarfjárhæðar var höfð hliðsjón af alvarleika brotsins, tímalengd og því að félagið hafi áður gengist undir sátti vegna brota á lögum um verðbréfaviðskipti, þ.e.a.s á 128. gr. laga nr. 108/2007. Þá var einnig horft til þess að engin viðskipti voru með umrædd skuldabréf á tímabilinu og því verður ekki séð að brot HS Orku hafi valdið fjárfestum tjóni. Litið var enn fremur til óverulegra umsvifa félagsins sem útgefanda á skuldabréfamarkaði og  þess að félagið hefur sýnt samstarfsvilja við rannsókn málsins og viðurkennt brotið.