Fjármálaeftirlitið skoðar nú framkvæmd og verklag hlutafjárútboðsins í Högum í desember þegar Arion banki seldi 30% hlut til fagfjárfesta og almennings. Þetta staðfestir FME og segir að Hagaútboðið hafi verið fyrsta nýskráningin og almenna hlutafjárútboðið á markaði frá árinu 2008 og því sé mjög mikilvægt fyrir traust og trúverðugleika markaðarins að það sé gert.

Að öðru leyti verst FME allra frétta en ekki er hægt að útiloka að FME hafi sjálft haft frumvæði að skoða útboðið enda kom fram veruleg gagnrýni á það í fjölmiðlum, m.a. í Viðskiptablaðinu, að upplýsingar um endurútreikninga lána hafi birst aðeins degi eftir að útboðinu lauk.

Almennt mun það vera afstaða FME að skoða öll hlutafjárútboð af þessu tagi heildstætt og nákvæmar ef minnsti grunur leikur á að einhverjar misfellur kunni hugsanlega að hafa verið.

Skoðun FME getur því snúið að einstökum framkvæmdaatriðum hjá umsjónaraðila útboðs og alveg upp í sviksamleg brot þannig að viðbrögðin geta verið frá því að gera einfaldlega athugasemdir við einstök atriði, beita stjórnvaldssekt eða í versta falli að vísa máli til lögreglu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.