Straumur hefur ráðið Andrew Bernhardt til starfa sem yfirmann Lánasviðs í London. Hann mun starfa undir stjórn Margit Robertet, framkvæmdastjóra Lánasviðs í Reykjavík, og vinna að þróun og eflingu bankans á sviði skuldsettrar fjármögnunar í Evrópu, að því er fram kemur í frétt frá fjárfestingabankanum.

Markmið Straums er að bjóða lykilviðskiptavinum í Norður- og Mið-Evrópu upp á alhliða fjárfestingabankaþjónustu og er ráðningin liður í því að auka verulega þjónustuframboð og bæta við reynslu bankans á sviði skuldsettrar fjármögnunar fyrir meðal stór fyrirtæki.

"Ráðningin er til marks um áframhaldandi áherslu okkar á að þróa þjónustu bankans á sviði skuldsettrar fjármögnunar," segir William Fall, forstjóri Straums, í fréttinni. "Við erum mjög ánægð með að hafa fengið til liðs við okkur svo öflugan starfsmann á því sviði. Við munum halda áfram að eflast og ætlum okkur að verða sterkt afl á markaði sem ekki er nægilega þjónað. Við höfum einsett okkur að verða sterkur lánveitandi með getu til að sölutryggja alla þætti fjármögnunar auk þess að koma áfram að fjármögnunarverkefnum sem þátttakandi. Starfsmenn lánasviðs, munu eftir megni vinna náið með Fyrirtækjasviði og Markaðsviðskiptum með það að leiðarljósi að bjóða viðskiptavinum okkar upp á heildstæða og samþætta þjónustu.?

Áður en Bernhardt gekk til liðs við Straum starfaði hann sem framkvæmdastjóri á sviði skuldsettrar fjármögnunar hjá GE Commercial Finance frá árinu 2005. Þar áður starfaði hann í 27 ár hjá Barclays Bank, síðast sem yfirmaður á sviði skuldsettrar fjármögnunar í London frá 2001 til 2005.