Axel Gíslason hefur ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga og Eignarhaldsfélagsins Andvöku að því er kemur fram í tilkynningu félaganna.

Axel var ráðinn framkvæmdastjóri Samvinnutrygginga og Líftryggingafélagsins Andvöku í byrjun árs 1989 og hefur gegnt þeim störfum samfellt síðan eða í tæp 18 ár. Hann var jafnframt forstjóri VÍS og Líftryggingafélags Íslands, LÍFÍS, frá stofnun þeirra þar til hann lét þar af störfum í lok árs 2002.

Eignarhaldsfélögin Samvinnutryggingar og Andvaka eignuðust helming hlutafjár í VÍS og LÍFÍS við stofnun þeirra og var það lengi vel aðaluppistaðan í eignasafni beggja. Eftir viðskipti eigenda VÍS og Exista fyrr á þessu ári er stærsta eign félaganna í Exista, en Exista á Vátryggingafélag Íslands, LÍFÍS, rúmlega fjórðungshlut í KB-banka og er stærsti einstaki eigandi Bakkavarar og Símans. Heildareignir Samvinnutrygginga og Andvöku og eigið fé þeirra hefur vaxið verulega á síðustu árum og nema heildareignir þeirra nú milli 30 og 40 milljörðum króna.

Stjórnir eignarhaldsfélaganna og Axel Gíslason hafa nú gert samkomulag um að hann láti af störfum framkvæmdastjóra fyrir lok þessa mánaðar, en hann mun sinna úrlausn og frágangi einstakra verkefna fram yfir aðalfundi félaganna á næsta ári. Ekki er getið um eftirmann hans í fréttatilkynningunni.