Benedikt Árnason hefur verið ráðinn sem aðstoðarforstjóri Askar Capital, segir í tilkynningu.

Benedikt kemur til bankans frá Norræna fjárfestingarbankanum í Helsinki þar sem hann hefur starfað sem einn af aðstoðarframkvæmdastjórum bankans og svæðisstjóri fyrir Ísland. Frá 1996 til 2005 starfaði Benedikt sem skrifstofustjóri fjármálamarkaðar í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti þar sem hann vann að þeim umfangsmiklu breytingum sem fjármálamarkaðurinn gekk í gegnum á þessum árum.

Benedikt er hagfræðingur að mennt. Hann lauk hagfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1990 og M.A. prófi í hagfræði og M.B.A. prófi frá Háskólanum í Toronto árin 1991 og 1993. Þá hefur Benedikt lokið prófi í verðbréfaviðskiptum frá Prófnefnd verðbréfaviðskipta.

Benedikt hefur stýrt fjölda opinberra nefnda um fjármála- og orkumarkaði. Hann hefur einnig setið í stjórnum Fjárfestingarskrifstofu Íslands, Markaðsskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar, Tryggingasjóðs viðskiptabankanna, Fjármálaeftirlitsins, Útflutningsráðs Íslands og verið varamaður í stjórn Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu.