Dagur Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Vals og mun hann koma til fullra starfa í júní 2007. Fram að þeim tíma mun hann verða Otthari Edvardssyni, sem ráðinn hefur verið aðstoðarframkvæmdastjóri Vals, innan handar um rekstur félagsins. Þetta kemur á heimasíðu Vals.

Þar kemur fram að Dagur mun koma að stefnumótun fyrir Val sem nú er að hefjast í samvinnu við Valsmenn hf. og ráðgjafafyrirtækið Capacent en vatnaskil verða í starfsemi Vals, þegar framkvæmdum við ný mannvirki að Hlíðarenda lýkur, en stefnt er að því að taka þau formlega í notkun þann 11. maí á næsta ári.

Dagur er með reynslu af rekstri eigin fyrirtækja og á að baki einstakan íþróttaferil sem Valsmaður og landsliðsmaður í handknattleik. Þá hefur hann nú síðast gert garðinn frægan í Austurríki þar sem hann hefur gert Bregenz að austurískum meistara í handknattleik síðustu 3 ár.