Sigsteinn P. Grétarsson hefur verið ráðinn forstjóri Marel ehf., dótturfélags Marel Food Systems hf.
í kjölfar samþættingar á fyrirtækjum í eigu félagsins fyrr á árinu var rekstur Marel á Íslandi aðskilinn frá móðurfélaginu sem fékk nafnið Marel Food Systems hf. að því er kemur fram í tilkynningu. Hörður Arnarson gegnir stöðu forstjóra Marel Food Systems hf.

Marel ehf. er því sjálfstæð viðskiptaeining innan samstæðunnar, við hlið AEW Delford, Carnitech, Scanvaegt og framleiðslufyrirtækis í Slóvakíu.


Sigsteinn lauk BSc. prófi í vélaverkfræði frá Bradley University 1990 og meistaragráðu frá University of Illinois at Urbana-Champaign, árið 1992. Að meistaranámi loknu, starfaði Sigsteinn um árabil sem ráðgjafi hjá Hans Dönges GmbH í Þýskalandi, en hóf síðan störf hjá Marel árið 1997.


Hann hefur komið víða við innan fyrirtækisins og gegndi störfum verkefnastjóra, ráðgjafa og svæðissölustjóra til ársins 2001 þegar hann fluttist til Ástralíu og stofnaði þar dótturfélag Marel. Sigsteinn var framkvæmdastjóri Marel Ástralíu til 2005 er hann snéri aftur til höfuðstöðvanna og tók við stöðu framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar. Sigsteinn hefur átt leiðandi þátt í samþættingarvinnu vegna kaupa félagsins á AEW Delford og Scanvaegt.
Sigsteinn er kvæntur Stellu Stefánsdóttur, doktorsnema í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og eiga þau 4 dætur.