Sveinn Aðalsteinsson hefur verið ráðinn forstöðumaður Starfsafls og hefur hann störf 15. september næstkomandi.

Sveinn, sem er fæddur 1960, hefur gegnt stöðu prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann er fyrrverandi skólameistari Garðyrkjuskólans og átti þátt í því að leiða það umbreytingarferli sem þar átti sér stað. Hann hefur verið í forustu um ýmis verkefni í landbúnaðargeiranum, setið í stjórnum og nefndum innanlands og utan. Hann hefur mótað og skipulagt starfsmenntanám og háskólanám á umhverfissviði, m.a. verið formaður starfsgreinaráðs um náttúrunýtingu og skipulagt endurmenntun fyrir skógarbændur (Grænni skógar) auk annars endurmenntunarstarfs, bæði innanlands og á norrænum vettvangi. Hann stundaði jafnframt rannsóknir og kennslu við sænska landbúnaðarháskólann (SLU) um árabil áður en hann tók við Garðyrkjuskólanum.

Sveinn hefur ritað fjölda blaðagreina um málefni garðyrkjunnar auk greina um stjórnun. Sveinn er með doktorspróf í plöntulífeðlisfræði frá háskólanum í Lundi, hefur lokið kennsluréttindanámi frá HÍ, kennsluréttindanámi í fullorðinsfræðslu frá SLU og er að leggja lokahönd á meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá Viðskipta- og hagfræðideild HÍ.