Sænska flugfélagið FlyMe Europe AB, sem er að mestu leyti í eigu íslenska eignarhaldsfélagins Fons, hefur samþykkt að kaupa Lithuanian Airlines. FlyMe greindi frá þessu seint í gær.

FlyMe sagði að stærsti eigandi sinn, eignarhaldsfélagið Fons, hefði samið um að gera kauptilboð í Lithuanian Airlines þar sem Fons gerist áskrifandi að hlutabréfum í félaginu í lokuðu hlutafjárútboði.

Með því að skrá sig fyrir bréfunum mun Fons eignast 33% hlut í Lithuanian Airlines. FlyMe mun hafa rétt á því að ráða forstjóra, stjórnarformann og skipa meirihluta stjórnar Lithuanian Airlines.

Einnig hefur félagið samið um kauprétt að 100% hlut í Lithuanian Airlines fyrir 25. febrúar árið 2009.

Markaðshlutdeild Lithuanian Airlines er 40% á litháenska flugmarkaðnum og það vinna um 580 manns hjá félaginu.