*

fimmtudagur, 28. október 2021
Innlent 4. janúar 2021 19:03

Forbes fjallar um íslenska frumkvöðla

Forbes ræðir við konurnar á bakvið appið RetinaRisk sem aðstoðar sykursjúka að fylgjast með einstaklingsbundinni áhættu á Sjónukvilla.

Ritstjórn
Skjáskot af appinu eins og það birtist í kynningu RetinaRisk.
RetinaRisk

Arna Guðmundsdóttir, læknir og frumkvöðull, hefur um áratugaskeið sinnt sykursjúkum og þróaði hún ásamt teymi sínu aðferð til að gera sykursjúkum kleift að fylgjast með augnheilsu sinni.

Þau þróuðu appið RetinaRisk, hvers algóritmi aðstoðar sykursjúka við að átta sig á einstaklingsbundinni áhættu á sjónukvilla (e. diabetic retinopathy). Algóritminn tekur tillit til þátta sem hafa mikil áhrif á þróun sjónukvilla, svo sem blóðsykurs, blóðþrýstings og kyns sjúklings.

Appið fór í loftið árið 2019 og hefur fyrirtækið aflað sér 1,8 milljónum dollara fjármögnun, bæði í formi styrkja og fjárfestinga.

Forbes ræddi við Örnu og Sigurbjörgu Ástu Jónsdóttur, forstjóra fyrirtækisins sem Arna stofnaði ásamt Einari Stefánssyni, augnlækni og prófessor við Háskóla Íslands.

Arna segir í viðtalinu sjónukvilla sykursjúkra vera krónískan sjúkdóm og að mikilvægt sé að sjúklingurinn taki ábyrgð á eigin heilsu. Með því að virkja sjúklinginn geti hann tekið örlögin í eigin hendur og þar komi appið að góðu gagni. Hún segir að eftir umfangsmiklar rannsóknir og árs eftirfylgni með appinu, sjái þau bæði vöxt og framfarir í heilsufari sjúklinga.

Á undan sinni samtíð

Arna þróaði algóritmann í kringum árið 2009 með eiginmanni sínum Thor Aspelund. Hún segir að þau hafi eflaust verið aðeins undan sinni samtíð, þar sem tryggingafélög og læknar sýndu lausninni lítinn áhuga á þeim tíma.

Áratug síðar, þegar appið kom í loftið, var umhverfið orðið mun móttækilegra og á liðnu ári hóf fyrirtækið að innheimta áskriftargjöld.

Sigurbjörg Ásta Jónsdóttir, forstjóri fyrirtækisins, telur stafræna heilbrigðisþjónustu vera í miklum vexti og að grundvallar breytingar séu að verða í heilbrigðisþjónustu séu að eiga sér stað með betur upplýstum sjúklingum sem taka virkari þátt í velferð sinni. Hún segir heimsfaraldur kórónuveirunnar hafa hraðað þróuninni.

Bæti skilvirkni Sjónukvilla skimunar

Vefþjónustulausn (e. API solution) RetinaRisk gerir heilbrigðisupplýsingakerfum kleift að tileinka sér algóritmann með einföldum hætti, að sögn Sigurbjargar Ástu. Þannig megi með sjálfvirkum hætti greina há-áhættu sjúklinga og með því að vinsa út ónauðsynlegar greiningar megi bæta skilvirkni skimunar.

„Ef hundrað sjúklingar eru skimaðir á einu sjúkrahúsi, og þau finna þrjá, fjóra eða fimm há-áhættu sjúklinga, er það ekki hagkvæm aðferð," segir Sigurbjörg Ásta í samtali við Forbes.

Hún segir markmið þeirra vera að ná einni milljón notenda á þessu ári og halda áfram að koma einstaklingsbundnum skimunum á framfæri. „Heilbrigðiskerfin búa yfir takmörkuðu fjármagni og Covid hefur haft slæm áhrif á stöðu þeirra. Að geta ráðstafað betur hvernig og hvar fjármunum er ráðstafað - við ættum ekki að eyða fjármunum í ónauðsynlegar skimanir og meðferðir," segir Sigurbjörg Ásta.